Kynjahlutföll í sveitarstjórnum aldrei jafnari

23.06.2022

Kynjahlutföll í sveitarstjórnum aldrei jafnari

Þann 14. maí síðastliðinn gengu íbúar á vöktunarsvæði Gaums til kosninga líkt og landsmenn allir. 

Á síðasta ári var samþykkt sameining sveitarfélaganna Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og var því í fyrsta skipti gengið til kosninga í sameinuðu sveitarfélagi sem hlotið hefur nafnið Þingeyjarsveit. 

Við sameininguna fækkar kjörnum fulltrúum á vöktunarsvæði Gaums úr 26 í 23. Fækkunin nemur aðeins þremur kjörnum fulltrúum þar sem nýtt sveitarfélag hefur fengið undanþágu til að hafa 9 fulltrúa í sveitarstjórn í stað 7, en fjöldi kjörinna fulltrúa í sveitarfélögum tekur mið af íbúafjölda. 

Niðurstöður kosninga eru á þá leið að kynjahlutföll hafa aldrei verið jafnari í sveitarstjórnum á Miðsvæði en nú. 

Í Tjörneshreppi var sjálfkjörið í sveitastjórn og þar er aðeins ein kona í sveitastjórn. Alls eru fjórar konur í sveitarstjórn í Þingeyjarsveit. Þar voru tveir listar í kjöri (E- og K- listi) og leiddi kona E-listann. Í Norðurþingi eru konur í meirihluta sveitarstjórnarfulltrúa eða fimm af níu fulltrúum. Konur leiddu framboð D- og V-lista og sömuleiðis skipuðu konur 2. og 3. sæti á þeim listum. 

Þegar kynjahlutföll í nefndum eru skoðuð er staðan sú að það hallar á karla, því í þeim 10 fastanefndum sem skipað hefur verið í hjá sveitarfélögunum þremur eru 18 karlar aðalmenn og 26 konur. Ef rýnt er í nefndaskipanina þá er hún með nokkuð hefðbundnum hætti, þar sem karlar eru gjarnan fleiri í nefndum sem snúa að atvinnumálum, skipulagi og framkvæmdum og konur eru gjarnan fleiri í nefndum sem snúa að fræðslumálum, íþróttum, tómstundum og velferð. 

Hægt er að rýna betur í upplýsingarnar í vísi 1.3.

 

 Meðfylgjandi mynd er af sveitarstjórn Norðurþings. Myndin var tekin fyrir fyrsta fund sveitarstjórnarinnar. Ljósmyndari er Gaukur Hjartarson. 

Á myndinni eru frá vinstri, Jónas Þór Viðarsson (varamaður) V-lista, Áki Hauksson M-lista, Bylgja Steingrímsdóttir (varamaður) B-lista, Hjálmar Bogi Hafliðason B-lista, Hafrún Olgeirsdóttir D-lista, Soffía Gísladóttir B-lista, Ingibjörg Benediktsdóttir V-lista, Helena Eydís Ingólfsdóttir D-lista og Benóný Valur Jakobsson S-lista.