Stýrihópsfundur Sjálfbærniverkefnisins í Mývatnssveit

15.11.2019

Stýrihópsfundur Sjálfbærniverkefnisins í Mývatnssveit

Þann 11. nóvember síðastliðinn fór fram 10. stýrihópsfundur Sjálfbærniverkefnisins á Norðausturlandi.

Á fundinn voru mættir allir fulltrúar utan fulltrúa ferðaþjónustuaðila í hópnum. Eins og stundum þegar þessi hópur kemur saman hafði veður aðeins áhrif á tímasetningu. Fundinum seinkaði um eina og hálfa klukkustund vegna veðurs sem hafði áhrif á flugsamgöngur. Fundurinn hófst því kl. 11:30 í stað 10:00. Á dagskrá fundarins voru fimm mál, yfirferð á stöðu og framgangi, kynning á breyttu verklagi, tillögur að breytingum á mælikvörðum, drög að starfsáætlun 2020 og undirbúningur ársfundar. 

Verkefnisstjóri fór yfir miðlun á gögnum og fréttum ásamt upplýsingum um gesti vefsins. Um 25% gesta á vefnum eru að koma þangað aftur og 75% eru nýir lesendur. Þá koma 57% gesta beint inn á vefinn en aðrir koma eftir leit á google, af öðrum síðum, svo sem fréttasíðum, sem vísa í vefinn og samfélagsmiðlum. Þá vekur athygli að þeir sem koma beint inn á vefinn dvelja lengst á honum og skoða mest á meðan þeir sem koma t.d. af fréttasíðum og samfélagsmiðlum skoða aðeins efnið á bakvið tengilinn sem þeir smelltu á þar. 

Verkefnisteymi Þekkingarnets Þingeyinga sem heldur utan um rekstur Sjálfbærniverkefnisins á Norðausturlandi mun á komandi vikum innleiða nýtt verklag í gagnaöflun og úrvinnslu sem felur í sér að gögn og útreikningar fara um hendur fleiri starfsmanna en verið hefur. Þetta er gert til að tryggja gæði og draga úr lýkum á að mistök sem geta átt sér stað við gagnaöflun og úrvinnslu rati í birtingu. 

Ársfundur Gaums er áformaður í maí og voru lögð drög að þema fundarins sem mun snúa að því hvernig hagnýta má gögn þau sem Gaumur birtir t.d. í tengslum við skipulagsmál sveitarfélaga og innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfsemi sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu.

Á myndinni eru Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri í Norðurþingi, Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit, Elma Sif Einarsdóttir, sérfræðingur umhverfismála PCC Bakkisilicon, Engilráð Ósk Einarsdóttir, verkefnastjóri gæðamála og samfélagsábyrgðar hjá Landsneti, Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur hjá RHA, Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnisstjóri samfélagsábyrgðar hjá Landsvirkjun, Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri í Skútustaðahreppi, Steinn Ágúst Steinsson, stöðvarstjóri Kröflu- og Þeistareykjavirkjunar, Helena Eydís Ingólfsdóttir, verkefnisstjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga. Mynd: Óli Halldórsson.