Mótun verkefnisins

Mótun verkefnisins

 • Samráð
 • Faghópar

Verkefnið rekur sögu sína aftur til ársins 2008 og sækir fyrirmynd í Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi. Verkefnið hafði til að mynda í megin atriðum sömu markmið og hlutverk og verkefnið á Austurlandi, um að styðja hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og taka tillit til umhverfis, efnahags og félagslegra þátta við framkvæmdir sem voru áformaðar í Þingeyjarsýslum. Hugmyndafræðin byggir á samþykktum Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegum samþykktum og stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Það sem greinir verkefnin tvö frá öðrum verkefnum um sjálfbærni var samráð við nærsamfélag og hagsmunaaðila. 

Landsvirkjun, Landsnet og Alcoa höfðu frumkvæði að því að ýta verkefninu úr vör en á þeim tíma unnu fyrirtækin að undirbúningi virkjana, háspennulína og álframleiðslu á Bakka. Verkefninu var ætlað að vakta áhrif fyrirhugaðs stóriðnaðar og virkjana á samfélag, umhverfi og efnahag og vera jafnframt vettvangur rannsókna á sviði sjálfbærrar þróunar á svæðinu. Þegar breytingar urðu á áformum um uppbyggingu áliðnaðar á Bakka var hægt á framgangi verkefnisins og það sett á bið árið 2012. Í lok árs 2014 var lagður grunnur að myndun nýs stýrihóps verkefnisins og næstu skrefum við að endurvekja það. 

Þekkingarneti Þingeyinga var falið að útfæra tillögu að verkefnisáætlun, setja fram tillögu að skipuriti verkefnisins, skilgreina hlutverk aðila verkefnisins og reikna út kostnað vegna reksturs þess. Verkefnið fór rólega af stað. Byrjað var á að greina þau gögn sem þegar lágu fyrir eftir tvo stóra samráðsfundi með almenningi og hagsmunaaðilum sem haldnir voru 2008 og 2009. Þær tillögur að vísum sem þar komu fram voru flokkaðir í þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar. Að auki voru samskonar vísar felldir saman í einn til að fækka mælikvörðum. Vísarnir fóru því næst í gegnum síu þar sem þeir voru metnir út frá því hvort þeir væru viðeigandi, einfaldir, áreiðanlegir og hvort gögn vegna vísanna væru aðgengileg. Að þessu loknu fóru þeir aftur fyrir samráð við almenning og hagsmunaaðila og voru að þvi loknu fullmótaðir. 

Samráð

Við upphaf verkefnisins árið 2008 var farið í víðtækt samráð við íbúa og hagsmunaaðila um mótun vísa verkefnisins. Haldnir voru tveir fundir annars vegar á Húsavík og hins vegar í Reykjahlíð þar sem hagsmunaaðilum og íbúum var boðið að hafa áhrif á það hverjir yrðu vísar verkefnisins. Árið 2016 þegar úrvinnslu úr þessu samráði var lokið hófst seinni hluti samráðsferilsins. Ákveðið var að hafa samráð við sérfræðinga á sviði hvers flokks sjálfbærni. Skilgreind voru hlutverk faghópa og sérfræðingar á hverju sviði voru kallaðir á samráðsfund að Laugum í Reykjadal. 

Hlutverk faghópa var að:

 • Gagnrýna val á vísum.
 • Gagnrýna framsetningu vísa.
 • Gagnrýna flokkun vísa.
 • Gera tillögu að nýjum vísum.
 • Leiðbeina um gagnaöflun.
 • Gera tillögu að púlsmælingum.

Á samráðsfundinum sem fór fram í Seiglu - Miðstöð sköpunar fengu faghóparnir kynningu á verkefninu ásamt umfjöllun um sjálfbærnimælingar, stofn- og flæðivísa. Að kynningum loknum unnuð þeir að því að rýna vísana og gerðu tillögur að breytingum.

Að loknu samráði við faghópa lá fyrir tillaga að 44 vísum ásamt athugasemdum um mælingar. Þegar unnið hafði verið úr tillögunni og athugasemdum faghópanna hófst næsta skref í samráðsferli verkefnisins.

Þar sem ungmenni á svæðinu hafa lítinn þátt tekið í opnum fundum um atvinnumál voru Framhaldsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn á Húsavík heimsóttir. Nemendur skólanna fengu kynningu á verkefninu og í kjölfarið var þeim skipt í 3 hópa sem hver yfirfór einn flokk af vísum og gerði athugasemdir við vísana og mælingar þeirra.  

Í kjölfar samráðsins við ungmenninn var almenningi og hagsmunaaðilum aftur boðið að borðinu. Boðað var til tveggja funda þar sem verkefnið og staða þess var kynnt. Fundargestum var að loknum kynningum skipt í hópa sem fengust við eftirfarandi spurningar:

 • Hvaða væntingar hefur þú til þeirra breytinga sem eru í vændum vegna iðnaðaruppbyggingar, Þeistareykjavirkjunar og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu?
 • Hvaða áhyggjur hefur þú vegna þeirra breytinga sem eru í vændum vegna iðnaðaruppbyggingar, Þeistareykjavirkjunar og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu?
 • Eru settir fram mælikvarðar sem fanga þessar væntingar og áhyggjur? Ef ekki hvaða mælikvörðum þarf að bæta við?
 • Þarf að breyta einhverjum mælikvörðum eða eru einhverjir mælikvarðar óþarfir?

Í þessu samráði við almenning og hagsmunaaðila komu fram gagnlegar ábendingar um mælikvarðana sem og tillögur um mælikvarða sem mætti bæta við og sem voru að mati fundagesta óþarfir.

Unnið var úr þeim athugasemdum sem komu fram í samráðsferlinu, vísar endurbættir og þeim fækkað enn frekar. Í dag eru vísarnir 20 talsins og mælikvarðar sem notaðir eru vegna þeirra eru 37.

 

Faghópar

Faghópar voru skipaðir á eftirfarandi hátt:

Samfélagshópur

 • Háskólinn á Akureyri – Marta Einarsdóttir
 • Jafnréttisstofa – Bergljót Þrastardóttir
 • Byggðastofnun – Guðmundur Guðmundsson
 • Rannsóknamiðstöð ferðamála – Kristín Sóley Björnsdóttir

Landlæknisembættið og Félagsvísindastofnun þáðu ekki boð um að tilnefna fulltrúa í faghópinn.

Umhverfishópur

 • Háskólinn á Akureyri – Brynhildur Bjarnadóttir
 • Náttúrustofa Norðausturlands – Aðalsteinn Örn Snæþórsson
 • Orkusetur – Sigurður Friðleifsson
 • Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn – Árni Einarsson
 • Umhverfisstofnun – Hildur Vésteinsdóttir

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík tilnefndi fulltrúa í hópinn en sá átti ekki heimangengt þegar að fundinum kom.

Efnahagshópur

 • Háskólinn á Akureyri – Jón Heiðar Þorvaldsson
 • Hagfræðistofnun Íslands – Ásgeir Heimisson
 • Rannsóknamiðstöð ferðamála – Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir
 • Byggðastofnun – Anna Lea Gestsdóttir
 • Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar ehf. – Jón Skafti Gestsson

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík tilnefndi ekki fulltrúa í hópinn en starfsmaður þess var tilnefndur af Rannsóknamiðstöð ferðamála.