Forsaga verkefnisins

Forsaga verkefnisins

Verkefnið rekur sögu sína aftur til ársins 2008 og sækir fyrirmynd í Sjálfbærniverkefnið á Austurlandi. Verkefnið hafði til að mynda í megin atriðum sömu markmið og hlutverk og verkefnið á Austurlandi, um að styðja hugmyndafræði um sjálfbæra þróun og taka tillit til umhverfis, efnahags og félagslegra þátta við framkvæmdir sem voru áformaðar í Þingeyjarsýslum. Hugmyndafræðin byggir á samþykktum Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegum samþykktum og stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Það sem greinir verkefnin tvö frá öðrum verkefnum um sjálfbærni var samráð við nærsamfélag og hagsmunaaðila. 

Landsvirkjun, Landsnet og Alcoa höfðu frumkvæði að því að ýta verkefninu úr vör en á þeim tíma unnu fyrirtækin að undirbúningi virkjana, háspennulína og álframleiðslu á Bakka. Verkefninu var ætlað að vakta áhrif fyrirhugaðs stóriðnaðar og virkjana á samfélag, umhverfi og efnahag og vera jafnframt vettvangur rannsókna á sviði sjálfbærrar þróunar á svæðinu. Þegar breytingar urðu á áformum um uppbyggingu áliðnaðar á Bakka var hægt á framgangi verkefnisins og það sett á bið árið 2012. Í lok árs 2014 var lagður grunnur að myndun nýs stýrihóps verkefnisins og næstu skrefum við að endurvekja það. 

Þekkingarneti Þingeyinga var falið að útfæra tillögu að verkefnisáætlun, setja fram tillögu að skipuriti verkefnisins, skilgreina hlutverk aðila verkefnisins og reikna út kostnað vegna reksturs þess. Verkefnið fór rólega af stað. Byrjað var á að greina þau gögn sem þegar lágu fyrir eftir tvo stóra samráðsfundi með almenningi og hagsmunaaðilum sem haldnir voru 2008 og 2009. Þær tillögur að vísum sem þar komu fram voru flokkaðir í þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar. Að auki voru samskonar vísar felldir saman í einn til að fækka mælikvörðum. Vísarnir fóru því næst í gegnum síu þar sem þeir voru metnir út frá því hvort þeir væru viðeigandi, einfaldir, áreiðanlegir og hvort gögn vegna vísanna væru aðgengileg. Að þessu loknu fóru þeir aftur fyrir samráð við almenning og hagsmunaaðila og voru að þvi loknu fullmótaðir.