Um verkefnið

Um verkefnið

Sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi er samfélagsverkefni sem hefur þann tilgang að fylgjast með samfélagslegum, umhverfislegum og  efnahagslegum breytingum.

Hvað er sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi?

Sjálfbærniverkefnið á Norðurlandi er samfélagsverkefni sem hefur þann tilgang að fylgjast með samfélagslegum, umhverfislegum og  efnahagslegum breytingum á svæði sem verkefnið hefur skilgreint sem sitt vöktunarsvæði. Vöktunarsvæðið er það svæði á Norðausturlandi sem talið er að muni verða fyrir mestum áhrifum af uppbyggingu og starfsemi Þeistareykjavirkjunar, uppbyggingu iðnaðar á Bakka og auknum umsvifum í ferðaþjónustu. 

Í upphafi voru sett eftirfarandi markmið með verkefninu:

  • Að fanga væntingar og áhyggjur vegna fyrirhugaðra framkvæmda og reksturs.
  • Að fylgjast með þróun samfélags, umhverfis og efnahags.
  • Að byggja upp þekkingu og gagnagrunn sem leiðir til bættrar ákvarðanatöku.

Unnið hefur verið í að því að uppfylla þessi markmið frá því að verkefnið var endurvakið árið 2014. 

Valdir hafa verið 20 vísar til að vakta breytingarnar og skilgreint áhrifasvæði framangreindra áhrifaþátta. Vísarnir voru flokkaðir í þrjár stoðir sjálfbærni: samfélag, umhverfi og efnahag. Gögn vegna vísanna verða birt á 6 mánaða til 6 ára fresti eftir því um hvaða gögn er að ræða. Tölur um vinnumarkað verða birtar oftast eða tvisvar sinnum á ári en upplýsingar um landnotkun sjaldnast eða á 6 ára fresti. Tíðni birtingar gagna ræðst að mestu af því hversu oft þeir aðilar sem safna viðkomandi gögnum birta þau.

 Væntingar eru til þess að verkefnið og þær upplýsingar sem verða til vegna vöktunarinnar sem fer fram innan þess geti í framtíðinni verið:

  • Uppspretta rannsókna meðal fræðimanna.
  • Undirstaða stefnumótunar opinberra aðila.
  • Vettvangur náms á öllum skólastigum.
  • Upplýsingaveita fyrir íbúa.
  • Upplýsingaveita fyrir atvinnurekendur og frumkvöðla.

Þeir sem standa að verkefninu eru Landsvirkjun, Landsnet, PCC Bakki Silicon, Norðurþing, Þingeyjarsveit, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri og ferðaþjónustuaðilar á Norðurlandi eystra. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnisstjórn.