Samráðsferli

Við upphaf verkefnisins árið 2008 var farið í víðtækt samráð við íbúa og hagsmunaaðila um mótun vísa verkefnisins. Haldnir voru tveir fundir annars vegar á Húsavík og hins vegar í Reykjahlíð þar sem hagsmunaaðilum og íbúum var boðið að hafa áhrif á það hverjir yrðu vísar verkefnisins. Árið 2016 þegar úrvinnslu úr þessu samráði var lokið hófst seinni hluti samráðsferilsins. Ákveðið var að hafa samráð við sérfræðinga á sviði hvers flokks sjálfbærni. Skilgreind voru hlutverk faghópa og sérfræðingar á hverju sviði voru kallaðir á samráðsfund að Laugum í Reykjadal. 

Hlutverk faghópa var að:

  • Gagnrýna val á vísum.
  • Gagnrýna framsetningu vísa.
  • Gagnrýna flokkun vísa.
  • Gera tillögu að nýjum vísum.
  • Leiðbeina um gagnaöflun.
  • Gera tillögu að púlsmælingum.

Á samráðsfundinum sem fór fram í Seiglu - Miðstöð sköpunar fengu faghóparnir kynningu á verkefninu ásamt umfjöllun um sjálfbærnimælingar, stofn- og flæðivísa. Að kynningum loknum unnuð þeir að því að rýna vísana og gerðu tillögur að breytingum.

Að loknu samráði við faghópa lá fyrir tillaga að 44 vísum ásamt athugasemdum um mælingar. Þegar unnið hafði verið úr tillögunni og athugasemdum faghópanna hófst næsta skref í samráðsferli verkefnisins.

Þar sem ungmenni á svæðinu hafa lítinn þátt tekið í opnum fundum um atvinnumál voru Framhaldsskólinn á Laugum og Framhaldsskólinn á Húsavík heimsóttir. Nemendur skólanna fengu kynningu á verkefninu og í kjölfarið var þeim skipt í 3 hópa sem hver yfirfór einn flokk af vísum og gerði athugasemdir við vísana og mælingar þeirra.  

Í kjölfar samráðsins við ungmenninn var almenningi og hagsmunaaðilum aftur boðið að borðinu. Boðað var til tveggja funda þar sem verkefnið og staða þess var kynnt. Fundargestum var að loknum kynningum skipt í hópa sem fengust við eftirfarandi spurningar:

  • Hvaða væntingar hefur þú til þeirra breytinga sem eru í vændum vegna iðnaðaruppbyggingar, Þeistareykjavirkjunar og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu?
  • Hvaða áhyggjur hefur þú vegna þeirra breytinga sem eru í vændum vegna iðnaðaruppbyggingar, Þeistareykjavirkjunar og aukinna umsvifa í ferðaþjónustu?
  • Eru settir fram mælikvarðar sem fanga þessar væntingar og áhyggjur? Ef ekki hvaða mælikvörðum þarf að bæta við?
  • Þarf að breyta einhverjum mælikvörðum eða eru einhverjir mælikvarðar óþarfir?

Í þessu samráði við almenning og hagsmunaaðila komu fram gagnlegar ábendingar um mælikvarðana sem og tillögur um mælikvarða sem mætti bæta við og sem voru að mati fundagesta óþarfir.

Unnið var úr þeim athugasemdum sem komu fram í samráðsferlinu, vísar endurbættir og þeim fækkað enn frekar. Í dag eru vísarnir 20 talsins og mælikvarðar sem notaðir eru vegna þeirra eru 37.