Áhrif orkuvinnslu í Kröflu á upplifun ferðamanna

19.06.2018

Áhrif orkuvinnslu í Kröflu á upplifun ferðamanna

Þann 4. júní síðastliðinn var gefin út skýrsla sem greinir frá niðurstöðum spurningakönnunar sem framkvæmd var á Kröflusvæðinu sumarið 2017. 
Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif Kröfluvirkjunar og tengdra mannvirkja á upplifun ferðamanna á svæðinu og bera saman við niðurstöður rannsókna sem framkvæmdar voru á Blöndusvæðinu árið 2016. Einnig voru hafðar til hliðsjónar niðurstöður spurningakannana sem framkvæmdar voru á sjö svæðum sumarið 2015. Það voru svæði sem voru til umfjöllunar í þriðja áfanga rammaáætlunar og voru í Skagafirði, við Skjálfandafljót, Skaftá, Hagavatn, Nýjadal, Seltúni og Trölladyngju. Sérfræðingar á Rannsóknamiðstöð ferðamála sáu um framkvæmd og úrvinnslu rannsóknarinnar fyrir Landsvirkjun.  

Í skýrslunni kemur fram að gestum í gestastofu í Kröflu hefur fjölgað töluvert frá árinu 2011 þegar þeir voru um 7.000 talsins til ársins 2017 þegar þeir voru um 20.000. Þá kemur einnig fram að svarendur könnunarinnar eru ánægðir með náttúru svæðisins og finnst hún falleg og áhrifamikil. Í samanburði við þau svæði sem áður höfðu verið skoðuð með sama eða sambærilegum hætti voru ferðamenn við Kröflu annað hvort jafnánægðir eða ánægðari með náttúru svæðisins. Mannvirki eins og Kröfluvirkjun virðist því ekki hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. 

Hér má lesa alla skýrsluna um áhrif orkuvinnslu á upplifun ferðamanna.