Íbúar á Húsavík jafnmargir nú og árið 2005

27.03.2019

Íbúar á Húsavík jafnmargir nú og árið 2005

Þann 20. mars síðastliðinn birti Hagstofan nýjar upplýsingar um þróun mannfjölda. Síðan þá hefur verið unnið að uppfærslu á gögnum tengdum lýðfræði sem birt eru í vísi 1.1. Þeirri uppfærslu er nú lokið að undanskildu því að gögn um aðflutta og brottflutta verða birt síðar á árinu sem og að gerð verður önnur uppfærsla síðar á árinu á gögnum um fjölda íbúa með erlent ríkisfang.  

Gögnin eru um margt afar áhugaverð. Hægst hefur á fjölgun íbúa á Húsavík sem voru 2.307 árið 2018 en 2.323 þann 1. janúar 2019. Íbúafjöldinn á Húsavík er nú nákvæmlega sá sami og hann var árið 2005. Flestir hafa íbúar á Húsavík verið 2.514 en það var árið 1983.

Íbúum á miðsvæði (640 og 641 Húsavík, Tjörneshreppur, Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit) fækkar á milli áranna 2018 og 2019, fara úr 4.241 í 3.997. 

Ef vísitala íbúafjölda er skoðuð má sjá að miðsvæðið stendur nú nokkuð jafnfætis vestursvæðinu (Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahreppur og Svalbarðsstrandarhreppur) sem er eitt samanburðarsvæðanna sem gjarnan eru notuð í verkefninu. Vísitalan fyrir miðsvæðið stendur í 107.5 en 106.94 fyrir vestursvæði. Heldur dregur í sundur með svæðunum tveimur og landinu öllu en vísitala íbúafjölda fyrir Ísland er 112.1. Upphafspunktur vísitöluútreikninganna er árið 2011. 

Þá voru uppfærð gögn um ríkisfang íbúa á árinu 2018. Það ár voru 909 íbúar á miðsvæði með erlent ríkisfang og 3838 með íslenskt ríkisfang. Flestir íbúar með erlent ríkisfang komu frá Póllandi eða 56%, því næst 7% frá Þýskalandi og 4% frá annars vegar Slóvaíku og hins vegar Bosníu og Hersegovíníu. Á síðasta ári voru Tékkar og Portúgalir í 3. og 4. sæti yfir fjölmennustu þjóðerni íbúa í sveitarfélögunum fjórum á miðsvæði. 

Mannfjöldapýramídarnir voru uppfærðir og nú eru birtir pýramídar áranna 2014 og 2019 á vef verkefnisins en hér að neðan má sjá myndir fyrir árin 2013, 2014, 2018 og 2019. 

 

Mynd 1. Mannfjöldapýramídi miðsvæðis árið 2013.

Mynd 2. Mannfjöldapýramídi fyrir miðsvæði árið 2014.

Mynd 3. Mannfjöldapýramídi fyrir miðsvæði árið 2018.

Mynd 4. Mannfjöldapýramídi fyrir miðsvæði árið 2019.