Fjórði ársfundur Gaums fór fram í gær

03.12.2021

Fjórði ársfundur Gaums fór fram í gær

Fjórði ársfundur Gaums var haldinn á Sel Hótel Mývatn þann 2. desember kl. 12-14. Yfirskrift fundarins var Dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda - breytt landnotkun og orkuskipti bílaflotans. 

Fundinum var streymt á facebook síðu Gaums. Alls voru 17 þátttakendur á staðfundi í Mývatnssveit og 7 tóku þátt í gegnum fjarfund, 14 til viðbótar hafa horft á streymið frá fundinum, svo þátttaka verður að teljast nokkuð góð. 

Jóna Bjarnadóttir setti fundinn. Hún lýsti verkefninu og markmiðum þess ásamt því að fjalla um upphaf verkefnsins og val á vísum þess, sem fór fram í gegnum opið samráð með bæði íbúum og fagaðilum. 

Dagbjórt Jónsdóttir tók að setningu lokinni við fundarstjórn og kynnti dagskránna. Umfjöllunarefnið er það sem er mál málanna í dag, sagði hún meðal annars. 

Verkefnistjóri Gaums, Helena Eydís Ingólfsdóttir, kynnti stýrihóp Gaums og þakkaði hópnum góð störf. Teymi Þekkingarnetsins sem heldur utan um daglega umsýslu með Gaumi var kynnt og að lokum farið yfir nokkra áhugaverða vísa og þróun þeirra. 

Svein Margeirsson var næstur á mælendaskrá. Erindi hans hafði yfirskriftina Tækifæri í bindingu gróðurhúsalofttegunda með breyttri landnotkun. Sveinn hóf erindi sitt á að segja frá því að hann hafi haft mikið gagn af Gaumi í tengslum við Nýsköpun i norðri frá árinu 2019 og áréttaði mikilvægi gagnasöfnunarinnar, það er hægt að stýra því sem er mælt en ekki því sem ekki er mælt. Sveinn benti á í erindi sínu að losun frá landi fær lítið rými í umræðunni um losun gróðurhúsalofttegunda þrátt fyrir að vera stærsti losunarþáttur Íslands í dag. Taka þurfi inn í umræðun losun frá almennu graslendi, bindingu í skóglendi og skógrækt en ekki bara votlendi. Í alþjóðlegu samhengi skipta slíkar mælingar afar miklu sem og samanburður á milli landa. Sveinn kom einnig inn á að í nýju sveitarfélagið sem formlega verður til að loknum kosningum í vor, sem nær yfir 12.000 km2 , sé búið að móta loftslagsstefnu og þar sé einnig horft til hringrásarhagkerfis. Að lokum fjallaði Sveinn um fjárhagsleg tækifæri í kolefnisbindingu, hver eru þau og hvað kostar losunarkvóti og hvernig markaður skapast fyrir bindingu gróðurhúsalofttegunda. 

Sigurlína Tryggvadóttir, kom í pontu í kjölfar erindis Sveins. Hún fjallaði um tvö verkefnið sem hafa verið hluti að undirbúningi sameiningar Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, annars vegar RÚLLUPP og hins vegar KOLNÍN. RÚLLUPP gengur út á að nýta heyfirningar til uppgræðslu. Á tveimur árum hefur 1.440 heyrúllum verið rúllað út, við hálendismörk, rofabörð og brekkur. Rúllurnar henta vel til uppgræðslu í sendnu landi, þar sem vistkerfi er hrunið og yfirborð óstöðugt. Nýting rúllanna með þessum hættir rýmar vel við hringrásarhugsunina þar sem úrgangur verður að auðlind sem bindur kolefni og stöðvar losun.  KOLNÍN er verkefni sem fjallar um möguleika á kolefnisbindingu og sölu kolefniseininga. Greind voru 5 stærri svæði innan sveitarfélagsins, samhliða endurskoðun á aðalskipulagi. Svæði voru greind með tilliti til landslagsheilda, vistkerfa og fjölbreyttrar landnotkunar. Þar með er lagður grunnur að því að kolefnisbinding með landgræðslu, landgræðsluskógrækt og endurheimt birkiskóga og kjarrlendis fái aukið vægi. Hrunin vistkerfi verði byggð upp og þar með haft áhrif á kolefnisbúskap. TÆkifæri nýs sveitarfélags felast helst í miklu landrými, auðn, þekkingu og reynslu. 

Að lokum kom flutti Sigurður Ingi Friðleifsson, erindi um þróun bílaflotans og vistvænni samgöngur. Megin viðfangsefnið í dag er hraði orkuskipta, ekki hvort af þeim verður. Ákvörðunin hefur verið tekin. Olíunotkun innanlands hefur aukist frá árinu 2014 vegna ferðaþjónustunnar á sama tíma hefur olíunotkun minnkað hjá fiskiskipum. Ávinningur orkuskiptanna er tvíþættur, annars vegar samfélagslegur ávinningur sem felst í orkuöryggi, gjaldeyrissparnaði, minni mengun, minni hávaða, bættri nýtingu raforkukerfisins og minni losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar efnahagslegur ávinningur sem er fólginn í rekstrarhagnaði. á undanförnum árum hefur þróun rafbíla gerst með miklum hraða. Þegar horft er til reksturs rafbíla er sparnaðurinn ekki fólginn í því að rafmagn sé ódýrara en olía heldur að eyðsla rafbíla er minni á hverja 100 km en bensínbíla. Rafbíll notar 18 kWst á hverja 100 km á meðan bensínbíll notar 75 kWst. Miðað við núverandi stöðu á Íslandi og nýlegt samkomulag á COP26 eru bensín- og díselbílar "uppseldir" á Íslandi, þ.e. ekki er rými fyrir fleiri slíka bíla í landinu ætli Ísland að efna samkomulagið. 

Að loknum erindum svöruðu frummælendur fyrirspurnum frá gestum fundarins áður en fundarstjóri sleit fundi.