íbúum á Miðsvæði fjölgar

17.04.2023

íbúum á Miðsvæði fjölgar

Íbúum á Húsavík fjölgar á milli ára. Þeir voru 2.433 í ársbyrjun 2022 en 2.508 við upphaf árs 2023 og hafa þeir ekki verið jafn margir síðan árið 1996 þegar íbúar voru 2.511. 
Á milli áranna 2022 og 2023 fjölgaði íbúum á Miðsvæði úr 3.956 í 4.093 eða um 3.5%. Fjölgun í Norðurþingi á Miðsvæði nemur 3.6%, fjölgun í Þingeyjarsveit nemur 3.2% en í Tjörneshreppi fækkar um 1,6% eða 1 íbúa. Á vöktunartíma Gaums hafa íbúar á Miðsvæði aðeins einu sinni verið fleiri. Það var árið 2018 sem var háönn við framkvæmdir á Þeistareykjum og Bakka og upphafsár rekstrartíma hjá PCC BakkiSilicon. 

Þegar hlutfallsleg þróun íbúafjölda er borin saman við Ísland allt, Vestursvæði og Austursvæði, sést að fjölgunin á Miðsvæði er hlutfallslega mest. Hlutfallsleg fjölgun á Íslandi er 3.06%, á Vestursvæði er hún 1,66%, á Austursvæði 1,09% og á Miðsvæði er fjölgunin 3.62%. 

Ef vístala íbúaþróunar er skoðuð þá er vísitala íbúafjölda á landinu öllu komin í 121,76 frá upphafi vöktunartíma Gaums. Á Austursvæðinu hefur hún lækkað og fór lægst í 89,87 árið 2020 en hefur farið hækkandi síðan þá og er nú 93,5. Á Vestursvæði er vísitalan 112,72. Framan af hélt svæðið í við þróunina á landsvísu en dregið hefur í sundur með svæðinu og landinu öllu hvað varðar þróun íbúafjölda frá árinu 2015. Þróunin á Miðsvæði sker sig úr að því leytinu til að þar lækkaði vísitalan frá árinu 2011 til ársins 2016 þegar hún var 99,11 en þá fór hún að hækka og varð 114,07 árið 2018 og var þá hærri en á landinu öllu. Vísitalan lækkaði niður í 105.14 árið 2021 og hefur hækkað síðan þá og stendur í 110,09 árið 2023.