Landsvirkjun og Mýsköpun semja um ræktun þörunga

02.11.2020

Landsvirkjun og Mýsköpun semja um ræktun þörunga

Nýverið undirrituðu fulltrúar Landsvirkjunar og Mýsköpunar  samning um rannsóknir, ræktun, þróun og framleiðslu  á þörungum, sem m.a. er að finna í Mývatni, á starfssvæði Landsvirkjunar á Norðurlandi.  Fyrst um sinn mun starfsemin hafa aðsetur í skrifstofuhúsnæði sem áður tilheyrði Kísiliðjunni við Mývatn. Verkefnið snýst um að meta fýsileika þess að MýSköpun ehf. rannsaki og rækti þörunga sem m.a. er að finna í Mývatni, þrói, framleiði og markaðssetji í framhaldinu verðmætar neytendavörur. t.d. úr spírulínu. Horft verður til þess að nýta strauma frá jarðhitavirkjunum við ræktunina, s.s. raforku, heitt og kalt vatn og jarðgös.

Markmið samningsins er að auka verðmætasköpun úr þeim efnum sem verða til við orkuvinnslu Landsvirkjunar. Verkefnið bætir þannig nýtingu auðlinda og skapar tækifæri til uppbyggingar og nýsköpunar fyrir nærsamfélagið. 

MýSköpun ehf. er nýsköpunarfyrirtæki í Mývatnssveit sem er ætlað að auka nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu. Markmið MýSköpunar er að vera leiðandi í framleiðslu á lífefnum úr þörungum, með fjölnýtingu jarðhita í fyrirrúmi og nýtingu auka afurða sem verða til í framleiðsluferlinu. Ræktun og hagnýting þörunga hefur í auknum mæli vakið áhuga vegna fjölbreyttra lífefna sem þeir framleiða og hagnýtingu þeirra í ýmsar söluvörur. Þegar talað er um lífefni er átt við efni á borð við fitusýrur, prótein, fjölsykrur, steinefni, karóten og önnur litarefni, auk fjölfenóla.