Meðferð úrgangs og förgun

30.04.2021

Meðferð úrgangs og förgun

Við birtum nýverið upplýsingar sem tengjast því sorpi sem fellur til hjá íbúum á Miðsvæði. 

Áður höfðu verið birt gögn um sorp hjá íbúum í Norðurþingi en nú bættust við íbúar í Þingeyjarsveit. Gögn vegna Þingeyjarsveitar ná aftur til ársins 2017. Á þeim má sjá að sorpmagn er að aukast en á þremur árum eykst sorpmagn í Þingeyjarsveit úr 137.5 tonnum í 157.9 tonn, aukningin nemur um 15%. Á sama tíma jókst sorpmagn í Norðurþingi úr 383.9 tonnum í 413.6 tonn eða um 7,7%. Beðið er gagna vegna Skútustaðahrepps. 

Ef heildarmagn sorps er reiknað niður á íbúa kemur í ljós að um sorpmagn á íbúa sveitarfélaganna tveggja er áþekkt árin 2017 og 2018 en árið 2019 fer sorpmagn aftur að aukast pr. íbúa í báðum sveitarfélögunum en þó heldur meira í Þingeyjarsveit þar sem sorpmagn pr. íbúa fer úr 148.1 kg í 176.6 kg. Til samanburðar fór sorpmagn á íbúa í Norðurþingi úr 146.6 kg í 157.2 kg. 

Einnig er fylgst með ferlum sorps, þ.e. hver mikið magn pr. íbúa fer í moltugerð, urðun og endurvinnslu. Frá árinu 2016 hefur sorp verið flokkað  með þessum hætti. Sorpflokkun í Þingeyjarsveit er hins vegar með þeim hætti að þar er almennu sorpi til urðunar og sorpi til endurvinnslu safnað. Samantekið fyrir svæðið á árinu 2019 sem er síðasta árið sem upplýsingar fyrir bæði sveitarélögin ná yfir fóru 61.5 kg pr íbúa í urðun, 41.5 kg pr íbúa í moltu og 28.1 kg í endurvinnslu. Hlutföllin 2019 eru þannig að 32% sorps fór í moltugerð, 47% var urðað og 21% fór í endurvinnslu.