Munur á kosningaþátttöku kynja í sveitastjórnarkosningum aldrei meiri á Miðsvæði en í sveitarstjórnarkosningum 2022

21.02.2024

Munur á kosningaþátttöku kynja í sveitastjórnarkosningum aldrei meiri á Miðsvæði en í sveitarstjórnarkosningum 2022

Á vettvangi Gaums er fylgst með kosningaþátttöku forseta-, Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Í kosningum árið 2022 var kosningaþátttaka ívið minni á Miðsvæði en í kosningum árið 2018, fór úr 78% í 74%. Sömu þróun má sjá á Vestursvæði þar sem kosningaþátttaka dróst saman um 2 prósentustig, úr 67% í 65% og á Austursvæði fór kosningaþátttaka úr 89% í 81%. Það sama gildir um landið allt þar sem kosningaþátttaka fór úr 68% í 60%. Það getur verið áhugavert að velta fyrir sér hvað veldur því að kosningaþátttaka dregst saman á Miðsvæði og samanburðarsvæðunum öllum. Sömuleiðis er áhugavert að kosningaþátttaka er almennt betri á Austursvæðinu þar sem í þessum gögnum er einungis eitt sveitarfélag í kosningunum 2022 og samfélagið fámennara en á öðrum svæðum sem borin eru saman í vísi 1.5, einungis 600 manns við upphaf árs 2022. Í kosningum 2022 var kosið í fyrsta skipti í tveimur sameinuðum sveitarfélögum, annars vegar Langanesbyggð sem var sameinuð Svalbarðshreppi undir nafni Langanesbyggðar og hins vegar Þingeyjarsveit sem var sameinuð við Skútustaðahrepp undir nafni Þingeyjarsveitar. Það hafði þó ekki jákvæð áhrif á kosningaþátttöku, heldur þvert á móti dró úr kosningaþátttöku í báðum nýju sveitarfélögunum frá því sem var í kosningum 2018. 

Þegar kosningaþátttaka er skoðuð eftir kynjum er staðan áþekk því sem verið hefur í kosningum 2010, 2014 og 2018 að kosningaþátttaka kvenna er betri en karla en munurinn hefur þó aldrei verið meiri á Miðsvæði en í kosningum 2022 þegar 77% kvenna á kjörskrá kusu á Miðsvæði í samanburði við 71% karla á kjörskrá. Kosningaþátttaka karla á Miðsvæði hefur aldrei verið lægri á vöktunartíma Gaums. Fyrir Austursvæði voru upplýsingar um þátttöku í kosningum eftir kynjum ekki aðgengilegar. Á Vestursvæði er þróunin áþekk því sem er á Miðsvæði, kosningaþátttaka kvenna er hlutfallslega meiri en karla og munurinn hefur aldrei verið meiri en við kosningarnar árið 2022 þegar 71% kvenna tóku þátt í kosningunum en aðeins 63% karla. Á landinu öllu er kosningaþátttaka áþekk því sem var í tveimur undangengum kosningum. Alls tóku 65% karla þátt í sveitarstjórnarkosningum 2022 og 67% kvenna. Kosningaþátttaka í kosningum 2018 var tveimur prósentustigum meiri hjá báðum kynjum en í kosningunum 2022.