Nýjar upplýsingar um vinnumarkað á miðsvæði

25.02.2019

Nýjar upplýsingar um vinnumarkað á miðsvæði

Birtar hafa verið nýjar upplýsinga um vinnumarkað á miðsvæði í vísi 3.1. Gögnin byggja á upplýsingum frá Vinnumálastofnun og Hagstofu Íslands. Vinnumálastofnun byggir upplýsingar sínar á útreikningum í mánaðarlegu skjali um atvinnuleysi í sveitarfélögum. Reiknað er út vinnuafl út frá fjölda 18-69 ára einstaklinga í hverju sveitarfélagi 1. janúar ár hvert. Þá er stuðst við ársfjórðungslegar atvinnuþátttökutölur úr vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Þetta er reiknað sérstaklega út fyrir karla og konur, og er atvinnuþátttaka á höfuðborgarsvæðinu notuð fyrir sveitarfélögin á því svæði og atvinnuþátttaka á öðrum landsvæðum notuð fyrir sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Að lokum er deilt í atvinnulausra í hverju sveitarfélagi með vinnuaflstölu þess sveitarfélags og þannig reiknuð atvinnuleysisprósentan. Áætlaður fjöldi starfandi er áætlað vinnuafl að frádregnum atvinnulausum. Vinnumálastofnun gerir þann fyrirvara á sínum gögnum að gera megi ráð fyrir að atvinnuþátttaka sé mismunandi á milli sveitarfélaga, en þar sem gögn Hagstofunnar, sem eru einu aðgengilegu gögnin um atvinnuþátttöku sem safnað er með reglubundnum hætti, gefa eingöngu upplýsingar um stöðuna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og á öðrum landssvæðum hins vegar eru þau gögn notuð við útreikninga. 

Ef rýnt er í þær upplýsingar sem nú hafa verið uppfærðar á vef verkefnisins má sjá jákvæða þróun þar sem hlutfall starfandi hefur farið úr 95% á árinu 2011 í 98,7% á árinu 2018. Atvinnulausir á miðsvæði voru 120 á árinu 2011 en 44 á árinu 2018. Öll árin frá 2011 til 2017 fækkaði atvinnulausum og voru þeir fæstir árið 2017 þegar þeir voru 33. Þróunin er áþekk á vestursvæði þar sem atvinnulausum hefur fækkað stöðugt frá árinu 2011. Til samanburðar voru atvinnulausir á austursvæði 19 árið 2011, 17 árið 2018 en flestir voru þeir 28 árið 2017. Kafa þarf dýpra ofan í þessi gögn til að leita skýringa á því hvers vegna þróunin er önnur á austursvæðinu en á miðsvæði og vestursvæði. Þegar upplýsingar eru bornar saman við stöðuna á landsvísu má sjá að þróunin er með áþekkum hætti og á landinu öllu og að hlutfallslega er atvinnuleysi ívið minna en gerist á landinu öllu. Sama gildir um vestursvæðið, það fylgir þróuninni á landsvísu en býr við ívið minna atvinnuleysi en gerist á landinu öllu. Austursvæðið sker sig úr að því leytinu til að frá árinu 2014 hefur hlutfall atvinnulausra verið hærra en á landsvísu. Atvinnuleysi var um 5% árin 2014-2017. Atvinnuleysi var um 4% á árinu 2018 á austursvæðinu.