Loftgæði við Bakka

01.04.2020

Loftgæði við Bakka

Umfangsmiklar mælingar fara fram á loftgæðum við Bakka. Á tveimur stöðvum sem staðsettar eru annars vegar á Húsavíkurleiti og hins vegar í Héðinsvík eru loftgæði mæld á klukkustundar fresti. Hægt er að fylgjast með loftgæðum dag frá degi á vefnum Loftgæði á Íslandi sem Umhverfisstofnun heldur úti. 

Í Sjálfbærniverkefninu er haldið utan um upplýsingar sem snúa að brennisteinsdíoxíði (SO2), PM10 og PM2,5. Brennisteinsdíoxíð er litlaus lofttegund, sem flestir finna lykt af ef styrkur efnisins í andrúmslofti nær um 1000 µg/m3. Í hreinu andrúmslofti er styrkurinn áætlaður um 1 µg/m3. Gróður getur tekið upp brennisteinsdíoxíð og umbreytt í súlfat (SO4) en sé það í miklu magni getur það leitt til gróðurskemmda. Viðmiðunarmörk fyrir hæsta stundargildi eru 350 µg/m3 en fyrir hæsta dagsgildi 125 µg/m3.

PM10 og PM2,5 er í raun það sem í daglegu tali er kallað svifryk. PM10 eru agnir sem eru 2,5-10 µm að stærð en PM2,5 eru undir 2,5 µm. Efnasamsetning og þar með eiginleiki agnanna getur verið mismunandi eftir uppruna þeirra. Uppblástur jarðvegs, eldgos og sjávarúði eru meðal náttúrlegra uppspretta svifryks á meðan eldsneytisbruni, umferð og iðnaður eru uppsprettur frá athöfnum og starfsemi manna. 

Frá því að mælingar á framangreindum efnum hópust árið 2016 hefur brennisteinsdóxíð alltaf verið undir viðmiðunarmörkum dagsgilda, sem og stundargilda. Styrkur PM10 hefur tvisvar farið yfir viðmiðunarmörk um dagsgildi, einu sinni á árinu 2018 og einu sinni á árinu 2019 og í bæði skiptin var það mælistöðin í Héðinsvík sem mældi styrkinn hærri en viðmiðunarmörk um dagsgildi segja til um. Hæsta tölur fyrir stöðvarnar tvær og styrk efna eru eftirfarandi:

Brennisteinsdíoxíð

  • Meðaltal mánaðar er 7.3 µg/m3
  • Hæsta dagsgildi 20.1 µg/m
  • Hæsta stundargildi 56.4 µg/m3

PM10

  • Meðaltal mánaðar er 14.8 µg/m3
  • Hæsta dagsgildi er 84.5 µg/m3
  • Hæsta stundargildi 287.7 µg/m3

PM2,5

  • Meðaltal mánaðar er 7.3 µg/m3
  • Hæsta dagsgildi er 24.1.5 µg/m3
  • Hæsta stundargildi 221.3 µg/m

Gögn um loftgæði eru uppfærð eftir því sem þau berast frá PCC BakkiSilicon, en í það minnsta tvisvar sinnum á ári.