Afbrotum fækkar á vöktunarsvæði Gaums

19.11.2019

Afbrotum fækkar á vöktunarsvæði Gaums

Á vettvangi Gaums er fylgst með fjölda afbrota á vöktunarsvæði verkefnisins (póstnr. 640-660) og hann reiknaður m.v. 10.000 íbúa og borin saman við fjölda afbrota á landsvísu. 

Við upphaf vöktunartíma Gaums voru afbrot á vöktunarsvæðinu 1.019 talsins m.v. 10.000 íbúa. Á sama tíma voru afbrot pr. 10.000 íbúa á landsvísu 1.787. Þróunin á tímabilinu 2011-2018 er áhugaverð. Á landsvísu hefur hún verið með þeim hætti að afbrotum fjölgaði úr 1.787 í 2.732 m.v. 10.000 íbúa á meðan afbrotum á vöktunarsvæði Gaums fækkaði úr 1.019 í 974. Á sama tíma fjölgaði íbúum úr 3.718 í 4.241.

Fæst afbrot voru framin árið 2012, eða 596 m.v. 10.000 íbúa en flest afbrot m.v. 10.000 íbúa voru framin árið 2016, eða 1360 talsins. Ef rýnt er í frumgögn vísis 1.4 um öryggi íbúa má sjá að stærstur hluti afbrotanna eru umferðalagabrot. Alls voru þau 86% allra afbrota á árinu 2016. Mikill fjöldi umferðalagabrota á árinu 2016 getur átt sér þær skýringar að aukin áhersla hafi verið á vegaeftirlit á vegum lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra það ár, sbr. það að í yfirstandandi viku 18.-24. nóvember ætla lögreglumenn hjá embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að fylgjast sérstaklega með ástandi á ljósabúnaði ökutækja, notkun öryggisbelta og farsíma við akstur í komandi viku, 18. – 24. nóvember. (Sjá nánar hér.)Það er sömuleiðis áhugavert að skoða þróun hegningalagabrota á vöktunartíma Gaums. Hegningarlagabrot eru brot gegn valdstjórninni, kynferðisbrot, manndráp og líkamsmeiðingar, brot gegn friðhelgi einkalífsins, auðgunarbrot, eignaspjöll og nytjastuldur. Á árinu 2011 voru hegningarlagabrot, eins og sjá má í frumgögnum vísis 1.4, 60 talsins á vöktunarsvæðinu. Þeim hefur fækkað í 34 á vöktunartímanum og voru fæst 25 árið 2017. Munar þar mest um að auðgunarbrotum og eignaspjöllum hefur fækkað. 

Í vísi 1.4 má skoða þróun afbrota enn frekar.  

Mynd: Facebooksíða Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.