Fasteignamat á Miðsvæði hækkar

04.06.2021

Fasteignamat á Miðsvæði hækkar

Þjóðskrá birti nýtt fasteignamat fyrir árið 2022 fyrr í vikunni. Fasteignamat er endurmetið ár hvert eins og kveðið er á um í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Þar segir að gera skuli fasteignamat 31. maí ár hvert miðað við gangverð eins og það var í næstliðnum febrúar. Fasteignamat 2022 miðast því við verðlag fasteigna í febrúar 2021 og tekur gildi 31. desember 2021. Íbúðarhúsnæði er metið með markaðsaðferð, þar sem upplýsingum úr nýlegum kaupsamningum er safnað ásamt upplýsingum úr fasteignaskrá um eiginleika fasteigna. Tölfræðilegar aðferðir eru þá notaðar til að útbúa líkan sem metur markaðsvirði eignar út frá eiginleikum hennar. Þær upplýsingar sem eru notaðar til grundvallar fasteignamati úr fasteignaskrá eru eftirfarandi samkvæmt upplýsingum á vef Þjóðskrár

 1. Staðsetning eignar
 2. Flatarmál eignar eftir flokkum
 3. Fjöldi hæða í húsi.
 4. Byggingarár/afskriftarár.
 5. Byggingarefni útveggja
 6. Notkunarflokkun
 7. Fjöldi herbergja
 8. Ummál húss ef um sérbýli er að ræða
 9. Upplýsingar um hvort bílskúr, bílskýli eða bílastæði tilheyri eigninni.
 10. Upplýsingar um fjölda hreinlætistækja
 11. Upplýsingar um hvort lyfta sé í húsi.
 12. Upplýsingar um hve margar íbúðir eru í húsi.
 13. Upplýsingar um fjölda íbúða á hæð.

Við höfum þegar birt undir vísi 3.6 upplýsingar um fasteignamat í Tjörneshreppi, Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit. Þær sýna að matið er að hækka í framangreindum sveitarfélögum.

Í Tjörneshreppi eru 44 fasteignir og hækkar mat þeirra um 11,1%, úr 823.954.000 kr. í 915.628.000 kr.  Fasteignamat í Skútustaðahreppi nær til 378 eigna og hækkar um 9,3%, úr 12.164.201.000 í 13.290.928.000 kr. Í Þingeyjarsveit eru eignirnar 1.178 og hækkar matið um 8,8%, úr 26.291.051.000 kr. í 28.596.039 kr. 

Við bíðum frekari gagna um fasteignamatið til að geta uppfært fasteignamat fyrir þann hluta Norðurþings sem tilheyrir Miðsvæðinu (vöktunarsvæði Gaums) og til að geta uppfært matið eftir íbúarð og atvinnuhúsnæði. Þeirra gagna er að vænta á næstu dögum.