Fasteignamat hækkar

14.06.2018

Fasteignamat hækkar

Samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2019 hækkar heildarmat fasteigna á landinu öllu um 12,8% á milli áranna 2018 og 2019 og verður 8.364 milljarðar. Nýtt fasteignamat miðast við verðlag í febrúar 2018 og tekur það gildi 31. desember 2018 fyrir árið 2019.  Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi fylgist með þróun fasteignamats á miðsvæði, sem er megin vöktunarsvæði verkefnisins og nær yfir Þingeyjarsveit, Skútustaðahrepp, Tjörneshrepp og þann hluta Norðurþings sem tilheyrir póstnúmerum 640 og 641, og birtir upplýsingar um það.

Ef fasteignamat ársins 2018 er borið saman við mat ársins 2019 má sjá umtalsverðar hækkanir á matinu á vöktunarsvæðinu. Heildarfasteignamat á miðsvæði hækkar um 17,3% m.v. 12,8% á landinu öllu og 11,6% á höfuðborgarsvæðinu. Heildarmat íbúðarhúsnæðis á miðsvæði hækkar um 24,3% samanborið við 12.7% á landinu öllu og 10,% á höfuðborgarsvæðinu. Þá hækkar mat á atvinnuhúsnæði um 11,1% samanborið við 15% á landinu öllu og 17,2% á höfuðborgarsvæðinu. 

Upplýsingar um þróun fasteignamats má sjá í vísi 3.6. Þar eru birt gögn um heildarmat fasteigna, heildarmat íbúðarhúsnæðis og heildarmat atvinnuhúsnæðis. Ef rýnt er nánar í tölurnar má sjá að frá árinu 2011 til ársins 2019 hefur heildarmat fasteigna á miðsvæði hækkað um 247,2% og fasteignamat íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um 265,3% á sama tímabili. 

Á vef Þjóðskrár kemur fram að upplýsingum um fasteignamatið verður miðlað með sama hætti og undanfarin ár.  Eigendur fasteigna geta frá og með 15. júní nálgast tilkynningarseðil um mat á eignum sínum í pósthólfi sínu á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is.