Forsetakosningarnar árið 2020

15.02.2021

Forsetakosningarnar árið 2020

Forsetakosningar fóru fram þann 27. júní 2020. Að þessu sinni stóð valið á milli tveggja frambjóðenda, sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar, og Guðmundar Franklín Jónssonar. 

Á kjörskrá voru 252.152 eða 69,2% landsmanna, af þeim greiddu 168.790 manns atkvæði. Í vísi 1.5 eru birtar upplýsingar um kosningaþátttöku í forsetakosningum og þátttaka íbúa á Miðsvæði borin saman við landið allt, Vestursvæði og Austursvæði. 

Kosningaþátttaka í kosningunum 2020 var minni en í síðustu kosningum þar á undan, árið 2016. Alls tóku 73% þeirra sem voru á kjörskrá þátt í kosningunum 2020 samanborið við 79% árið 2016. Þessi mikla þátttaka 2016 verður sennilega helst skýrð með því að þá var verið að kjósa nýjan forseta. Ef kosningaþátttaka á miðsvæði er borin saman við landið allt, Vestur- og Austursvæði má sjá að hún er mest á Miðsvæðinu, næst mest á Vestursvæðinu,  og því næst á landinu öllu. Því sem næst sama mynd og var í hvort tveggja kosningunum 2012 og 2016, fyrir utan að kosningaþátttaka svar sú sama á landinu öllu og vestursvæði árið 2016. 

Ef kosningaþátttaka er skoðuð eftir kynjum þá kusu 67% karla á kjörskrá á Miðsvæði í kosningunum 2020 en 78% kvenna. Sama mynstur er að finna síðustu kosningar á undan, þátttaka kvenna er meiri en karla.  Mestur munur er á kosningaþátttöku karla og kvenna á Austursvæðinu en minnstur á landinu öllu. 

Með því að rýna í frumgögnin undir vísi 1.5 er hægt að skoða betur gögn úr einstökum sveitarfélögum á Miðsvæði og á samanburðarsvæðunum. Þar má sjá að í  sveitarfélögunum fjórum á Miðsvæði var kosningaþátttaka mest í Skútustaðahreppi eða 83% en minnst í Tjörneshreppi 74,1%. Á Austursvæðinu var kosningaþátttaka best í Langanesbyggð, þar sem hún var því sem næst sú sama og í Tjörneshreppi. Á Vesursvæðinu var kosningaþátttaka allsstaðar svipuð og í Tjörneshreppi, rúm 74% nema í Grýtubakkahreppi þar sem kosningaþátttaka var 86,1%. Það eru fá sveitarfélög sem státa af jafn góðir kosningaþátttöku og Skútustaðahreppur og Grýtibakkahreppur.