Hvernig tengjast heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sveitarfélögin á vöktunarsvæði Gaums og gagnasafn Gaums?

17.10.2019

Hvernig tengjast heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sveitarfélögin á vöktunarsvæði Gaums og gagnasafn Gaums?

Á þessu ári hefur Samband íslenskra sveitarfélaga staðið fyrir tveimur viðburðum tengdum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í febrúar stóð Sambandið fyrir kynningarfundi á heimsmarkmiðunum í samstarfi við verkefnisstjórn þeirra og í júní var settur á stofn samráðsvettvangur sveitarfélaganna um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Vettvangurinn hefur þann tilgang að greiða fyrir umræðu á meðal sveitarfélaga og samstarfi um loftslagsmál og sjálfbæra þróun. Af þessu má vera ljóst að sjálfbær þróun er á dagskrá á vettvangi sveitarfélaga á Íslandi. Það sést einnig á því að sveitarfélög hafa hafið innleiðingu á heimsmarkmiðum í sína starfsemi og hrint af stað verkefnum sem tengja má beint við heimsmarkmiðin.  
En með hvaða hætti tengist Gaumur heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðunum og hvernig gagnast sú vöktun sem fer fram á vettvangi Gaums sveitarfélögunum á megin vöktunarsvæði verkefnisins?

Við skoðun á heimskmarkmiðunum kemur fljótt í ljós að á vettvangi Gaums er fylgst með ýmsu sem tengist markmiðunum beint og óbeint. Þau gögn sem birt eru á vef Gaums gefa upplýsingar sem tengjast markmiðunum og stöðu þeirra á svæðinu og geta þar með hjálpað sveitarfélögunum á vöktunarsvæði Gaums að glöggva sig á eigin stöðu gagnvart heimsmarkmiðunum sem og stöðu svæðisins í heild. 

Skoðum nokkur markmið og undirmarkmið þeirra og tengingu Gaums við markmiðin. Fimmta heimsmarkmiðið snýr að jafnrétti kynjanna. Undirmarkmið 5.5 segir að tryggja eigi virka þátttöku kvenna og jöfn tækifæri þeirra til að vera leiðandi við ákvarðanatöku á öllum sviðum stjórn- og efnahagsmála sem og á opinberum vettvangi. Á vettvangi Gaums er fylgst með kynjahlutfalli í sveitarstjórnum og nefndum á vettvangi sveitarstjórna. Gaumur fylgist með stöðunni á svæðinu í heild en með því að rýna í frumgögn sem einnig eru birt við flesta vísa Gaums má sjá hver staðan er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, þannig að ef sveitarfélög vildu setja sér sín eigin markmið um jafnrétti kynjanna gæti þessi vísir í Gaumi hjálpað til varðandi það að fá upplýsingar um stöðuna og fylgjast með henni. Sjötta heimsmarkmiðið snýr að aðgengi að og sjálfbærri nýtingu á hreinu vatni og salernisaðstöðu. Undirmarkmið 6.3 snýr að því að auka vatnsgæði með því að draga úr mengun, losun sorps og hættulegra efna og efnablanda. Vatnsgæði er eitthvað sem Íslendingar hafa dags daglega litlar áhyggjur af en engu að síður nauðsynlegt að fylgjast með vatnsgæðum neysluvatns. Það er gert í þéttbýliskjörnum á vöktunarsvæði Gaums og birt á vef verkefnisins og nýtist þar með sveitarfélögunum við að fylgjast með og sýna fram á gæði vatns á sínu svæði. Áttunda heimsmarkmiðið snýr að atvinnu og hagvexti. Undirmarkmið 8.5 segir að eigi síðar en árið 2030 eigi að vera full vinna og mannsæmandi störf í boði fyrir alla og sömu laun greidd fyrir jafnverðmæt störf. Gaumur fylgist með atvinnuleysi og starfandi á vinnumarkaði. Þær upplýsingar gefa til kynna hver staðan er varðandi varðandi vinnumarkaðinn á svæðinu. Þetta eru einungis nokkur dæmi sem sýna tengingu Gaums og sveitarfélaganna sem vöktunin nær til við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og ljóst að fleira sem fylgst er með á vettvangi Gaums.