Íbúum á miðsvæði fækkar á milli ára.

31.03.2021

Íbúum á miðsvæði fækkar á milli ára.

Ný gögn um íbúafjölda í sveitarfélögum og byggðakjörnum sem Hagstofa Íslands hefur birt sýna að íbúum fækkar í öllum sveitarfélögum á Miðsvæði að Tjörneshreppi undanskyldum. 

Við upphaf árs 2020 voru íbúar á Miðsvæði 4.048 en fækkar um 139 manns á milli ára og voru 1. janúar 3.909 talsins. Fækkunin nemur 3.43%. Íbúum í Þingeyjarsveit fækkar um 10, úr 862 í 852. Íbúum í Skútustaðahreppi fækkar úr 507 í 471 eða um 36 manns. Íbúum í Norðurþingi (á Miðsvæði) fækkar úr 2.625 í 2.530 eða um 95 manns. Í Tjörneshreppi fjölgaði íbúum úr 54 í 56 manns. 

Ef hlutfallsleg þróun íbúafjölda á Miðsvæði er borin saman við þróun á landsvísu eða við samanburðarsvæðin austan og vestan við Miðsvæði kemur eftirfarandi í ljós eins og sjá má nánar í vísi 1.1.

Á landsvísu hefur hægt á íbúafjölgun frá árinu 2018. Íbúum fjölgaði um 1,28% á milli ára. Á Vestursvæði sem nær frá Akureyri að Fnjóskárdal fjölgaði íbúum um 0,9%. Á Miðsvæði fækkar íbúum um 3,43%. Á Austursvæði fjölgar íbúum um 3.1%. 

Ef þróunin er skoðuð út frá vísitölu með núllpunkt í árinu 2011 er vísitala íbúafjölda á Miðsvæði 105,14, á landinu öllu 115,81, á Vestursvæði í 108,55 og á Austursvæði í 92,66.