Konum fjölgar í sveitarstjórnum

01.11.2019

Konum fjölgar í sveitarstjórnum

Oft hefur verið mikill munur á fjölda karla og kvenna í sveitarstjórnum en nú ber svo við að konum fjölgar í sveitarstjórnum á milli áranna 2018 og 2019. Konum fjölgaði úr 7 í 11 og körlum fækkaði úr 19 í 15. Konur eru nú 42% sveitarstjórnarfulltrúa á svæðinu og karlar 58%. Munur á milli kynjanna hefur ekki verið minni áður á vöktunartíma Gaums. Mestur var hann árin 2017 og 2018 þegar konur voru 27% sveitarstjórnarfulltrúa en karlar 73%. 

Ef einstakar sveitarstjórnir eru skoðaðar þá kemur í ljós að í Skútustaðahreppi eru kynjahlutföllin jöfnust. Þar er sveitarstjórn skipuð þremur körlum og tveimur konum. Í Þingeyjarsveit og Tjörneshreppi hallar á konur. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar er skipuð fimm körlum og tveimur konum. Í Tjörneshreppi eru fjórir karlar og ein kona í sveitarstjórn. Í Norðurþingi ber svo við að þar er farið að halla á karla en konur eru nú sex í sveitarstjórn og karlar þrír. 
Kynjahlutfall í nefndum sveitarfélaga er aftur á móti orðið jafnt, 50% nefndarmanna eru konur og 50% karlar. Einu sinni áður á vöktunartíma Gaums hafa kynjahlutföll í nefndum verið alveg jöfn en annars hafa konur fjórum sinnum verið fleiri en karlar og karlar þrisvar sinnum verið fleiri en konur. Þess ber þó að geta að þó hlutföllinn í heildina séu nokkuð jöfn og þar halli ekki áberandi á annað hvort kynið að ef einstakar nefndir eru skoðaðar þá er raunin oft önnur. Sem dæmi má nefna að nefndir sem hverfast um fræðslu, félagsþjónustu og menningu hafa oftar verið skipaðar fleiri konum á sama hátt og nefndir sem hverfast um skipulagsmál, atvinnumál, fjármál, stjórnsýslu, framkvæmdir hafa oftar verið skipaðar fleiri körlum. 

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur gaf nýverið út bókina Um Alþingi - Hver kennir kennaranum? Í henni birtir Haukur gögn sem til eru í gagnagrunni Alþingis og hafa ekki verið birt áður. Þar kemur fram að konur séu neðar á framboðslistum en karlar og að við upphaf kjörtímabils séu þær færri en karlarnir. Þegar líður á kjörtímabil fjölgar konum á þingi þar sem þær koma inn sem varamenn.  Áhugavert væri að skoða betur þau gögn sem birt eru á vef Gaums um hlutfall karla og kvenna í sveitarstjórn og nefndum sveitarfélaga með þetta í huga og komast að hvort þessu sé eins háttað í sveitarstjórnum og á Alþingi. 

Hægt er að rýna betur í gögnin um kynjahlutfall í nefndum og ráðum í vísi 1.3