Líðan grunnskólabarna

24.06.2020

Líðan grunnskólabarna

Á sex ára fresti fer fram rannsókn á heilsu og lífskjörum íslenskra skólanema. Rannsóknin er unnin fyrir tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og nefnist Health Behaviour in School-aged Children (HSBC). Rannsóknin fór fram í 44 löndum árið 2018. Viðfangsefnið er lífstíll, næring, matmálstímar, hreyfing, tómstundir, slys, tannhirða, félagsleg tengsl og umhverfi auk áhættuhegðunar.

Nú hafa verið uppfærð gögn um líðan nemenda í grunnskólum í vísi 1.6 sem fengin eru úr framangreindri rannsókn. Á miðsvæði eru fjórir grunnskólar, Borgarhólsskóli á Húsavík, Reykjahlíðarskóli í Skútustaðahreppi, Stórutjarnaskóli og Þingeyjarskóli, báðir í Þingeyjarsveit. Árið 2012 tóku allir skólarnir þátt í rannsókninni en árið 2018 tóku nemendur í Stórutjarnaskóla ekki þátt í rannsókninni. 

Rannsóknin er lögð fyrir nemendur í 6., 8. og 10. bekk. Í vísi 1.6 eru dregnar saman niðurstöður úr svörum allra nemenda í þessum bekkjum. Svör nemenda á miðsvæði eru borin saman við svör nemenda annars staðar á Norðurlandi eystra og eru þá skólarnir á Miðsvæði dregnir út úr þeim samanburði. Þá eru svörin einnig borin saman við svör nemenda á landinu öllu. 

Helstu niðurstöður eru þær að líðan nemenda í skólum virðist fara versnandi á milli áranna 2012 og 2018 á öllum svæðum. Á landinu öllu voru það 45,2% sem sögðu árið 2012 að þeim líkaði mjög vel í skóla en 40% sögðu það sama árið 2012. Á Norðurlandi eystra lækkaði hlutfallið úr 41,1% í 37,5% á milli rannsókna og á Miðsvæði úr 41,1% í 25,3%. Að sama skapi fjölgar þeim sem líkar ekki og alls ekki vel í skóla úr 9% í 11,3% á landinu öllu, 9,9% í 13,5% á Norðurlandi eystra og úr 11,6 í 20,6 á Miðsvæði. Athygli vekur að svör nemenda á Miðsvæði gefa til kynna að þeim líði almennt verr í skólanum en jafnöldum á Norðrlandi eystra og á landinu öllu.