Loftgæði við Húsavík

11.12.2019

Loftgæði við Húsavík

Frá því í desember 2016 hafa staðið yfir mælingar á loftgæðum við Húsavík og norðan við Bakka nánar tiltekið á Húsavíkurleiti og Héðinsvík. Mælingarnar sem fóru fram á tímabilinu desember 2016-desember 2017 eru svokallaðar bakgrunnsmælingar, þar sem verið var að kanna hver staðan væri áður en kísilmálmverksmiðjan á Bakka tæki til starfa. Þær er því hægt að nota til að bera saman við stöðuna eftir að verksmiðjan hóf starfsemi

Hér á vettvangi Gaums fylgjumst við með mælingum á SO2, PM10 og PM2,5 og birtum gögn þar um. En hvað er þetta?

SO2 eða brennisteinsdíoxíð, er litlaus lofttegund sem flestir finna lykt af, ef styrkurinn nær um það bil 1000 µg/m3. Brennisteinsdíoxíð myndast við bruna á eldsneyti t.d. frá bifreiðum en líka frá iðnaði og sleppur út í andrúmsloftið nema fram fari hreinsun á afgasinu. Of mikið af brennisteinsdíoxíði í andrúmsloftinu getur haft í för með sér m.a. súrt regn og gróðurskemmdir. Þá getur brennisteinsdíoxíð haft neikvæð áhrif á heilsu manna en hár styrkur getur t.d. hindrað öndun, valdið ertingu í nefi, augum og hálsi. 

PM10 og PM2,5 eru svifryksagnir. PM10 eru agnir sem eru <10 µm að þvermáli. Þetta eru t.d. frjókorn, mygla og ryk. PM2,5 eru agnir sem eru <2,5 µm að þvermáli. Þetta eru t.d. agnir frá bruna, lífræn efni og málmar.  Svifyk sem er minna en 10 µm að þvermáli kemst inn í öndunarfæri manna og getur komist inn í blóðrásarkerfið. Áhrif svifryks á heilsu geta verið margvísleg, hvort tveggja til skemmri eða lengri tíma og eru öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar þar efstir á blaði.  Hér að neðan má sjá stærð svifryksagnanna borna saman við sandkorn og mannshár. Myndin er fengin af Vísindavefnum. 

Til að vernda viðkæma einstaklinga og draga úr áhrifum mengunar á heilsu eru sett fram viðmiðunarmörk varðandi magn SO2, PM10 og PM2,5. Umhverfismörk fyrir PM10 eru 50 µm3 á sólarhring og má styrkurinn fara upp í þetta 7 sólarhringa á ári. Umhverfismörk fyrir PM2,5 fyrir árið eru 20 µm3. Umhverfismörk fyrir SO2 - klukkustundargildi er 350 µm3 á klukkustund allt að 24 sinnum á ári, sólarhringsgildi er 50 µm3 á sólarhring allt að sjö sólarhringa á ári.

Niðurstöður mælinga á loftgæðum við Héðinsvík og á Húsavíkurleiti þar sem mælarnir eru staðsettir sýna að í öllum tilfellum að undanskildu einu skipti eru lofgæði undir framangreindum umhverfismörkum. Í janúar 2019 fór styrkur PM10 yfir viðmiðunarmörk fyrir dagsgildi (50 µm3) og mældist gildi dagsins 84,5 µm3.

Hér í vísi 2.1 má skoða betur mælingar á styrk PM10, PM2,5 og SO2

 

 

 

 

Heimildir: 

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=68957

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75137