Losun

18.10.2021

Losun

Nú er lokið uppfærslu á vísi 2.1 hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjununum á Mývatnssvæðinu og frá kísilmálmverksmiðju PCC BakkiSilicon. 

Losun gróðurhúsaloftegunda er umreiknað í koldíoxíðígildi vegna starfsemi virkjananna í Bjarnarflagi, Kröflu og Þeistareykjum. Við upphaf vöktunartíma árið 2011 voru samtals losuð 42.527 tonn af koldíoxíðígildum. Á árinu 2020 voru þetta 30.677 t af koldíoxíðígildum. Stærtur hluti losunarinnar er koldíoxíð og lítill hluti er losun metans.  Magn metans er umreiknað í koldíoxíðígildi þar sem 1 kg af metani jafngildir 25 kg af koldíoxíði. Umtalsverður munur er á losun á milli virkjananna. Hann ræðst af svæðunum sjálfum, jarðfræði þeirra og gerð jarðhitasvæðisins. Mun meira gas er í gufunni við Kröflu en Þeistareyki sem skýrir þá meiri losun gróðurhúsalofttegunda við Kröflu en Þeistareyki. Við Kröfluelda jókst gashluti í gufunni mjög mikið, en síðan hefur dregið úr ár frá ári. Losun frá Þeistareykjavirkjun hefur dregið saman frá árinu 2018 þegar hún var 7.937 tonn í samanburði við 6.123 tonn. Heildarlosun Mývatnssvæðisins (jarðvarmavirkana á svæðinu) er nú aðeins um 72% af því sem hún var árið 2011 þegar vöktun Gaums hófst. 

Mælingar á losun koldíoxíðs frá PCC BakkiSilicon ná til ársins 2018 sem er fyrsta starfsár verksmiðjunnar. Á þeim þremur árum sem verksmiðjan hefur verið rekin hefur einungis náðst eitt heilt ár með báða ofna verksmiðjunnar í rekstri. Ofnarnir voru ekki ræstir fyrr en annars vegar 30. apríl og 31. ágúst á fyrsta starfsárinu og slökkt var á þeim báðum í júlímánuði árið 2020, vegna ástands á heimsmarkaði vegna COVID-19 og viðhalds sem nauðsynlegt var á ofnunum. Heildarlosun á starfsárinu 2019 var 98.405t. Heildarlosun á árinu 2020 var 58.966. Áætluð árlega losun á fullum afköstum er 120.000 t af koldíoxíði.