Lýðheilsuvísar landlæknisembættisins voru uppfærðir fyrr á árinu.

16.11.2018

Lýðheilsuvísar landlæknisembættisins voru uppfærðir fyrr á árinu.

Í Sjálfbærniverkefninu á Norðausturlandi er fylgst með lýðheilsuvísum landlæknisembættisins. Lýðheilsuvísarnir eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan íbúa og áhrifaþætti þeirra. Lýðheilsuvísarnir eru birtir eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi svo skoða megi stöðuna í hverju umdæmi fyrir sig og bera saman við landið allt. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðuna í sínu umdæmi, finna styrkleika og veikleika og skilja þarfir íbúanna þannig að þau geti unnið saman að því að bæta heilsu og líðan þeirra segir í kynningu landlæknisembættisins á lýðheilsuvísunum. 

Ef skoðaðir eru lýðheilsuvísar þar sem Noðurland víkur frá landsmeðaltali fyrstu árin sem þeir hafa verið birtir þ.e. 2016, 2017 og 2018 koma fram áhugaverðar upplýsingar. Notkun sýklalyfja meðal barna yngri en 5 ára lægri en landsmeðaltal öll árin, árin 2016 og 2018 er ölvunardrykkja fullorðinna og áhættudrykkja fullorðinna lægri en landsmeðaltal, árin 2016 og 2017 er gosdrykkja framhaldsskólanema undir landsmeðaltali og að lokum telja hlutfallslega fleiri fullorðnir á Norðurlandi að líkamleg heilsa þeirra sé slæm en annars staðar á landinu á árunum 2016 og 2018. Árið 2018 eru það meira að segja hlutfallslega flestir á Norðurlandi sem meta líkamlega heilsu sína slæma. Aðrir lýðheilsuvísar víkja ekki oftar en einu sinni frá landsmeðaltali þessi þrjú ár sem vísarnir hafa verið birtir. 

 Um lýðheilsuvísana má lesa meira undir vísi 1.5