Nýjar upplýsingar um fjölda starfa við löggæslu

07.02.2019

Nýjar upplýsingar um fjölda starfa við löggæslu

Í lok janúar fjölluðum við um fjölgun starfa við löggæslu á milli áranna 2016 og 2017. Einnig kom fram í fréttinni að von væri á nýjum upplýsingum um fjölda starfa við löggæslu. Þær upplýsingar hafa nú verið birtar undir vísi 1.4 Öryggi íbúa
Þegar rýnt er í tölurnar er vert að hafa tvennt í huga. Annars vegar að um er að ræða störf við löggæslu, umferðareftirlit, rannsóknarstörf og störf stjórnenda hjá embætti Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Hins vegar að ekki er um að ræða fjölda starfa á öllu því svæði sem embættið nær til. Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð tilheyra embættinu en falla utan þeirra svæða sem fylgst er með í Sjálfbærniverkefninu svo þau störf innan embættisins sem staðsett eru þar eru til viðbótar við þær tölur sem birtar eru undir vísi 1.4.

Við skoðun má sjá að störfum við löggæslu hefur fjölgað úr 36 í 43,5 frá árinu 2016 til ársins 2019. Störfum á Akureyri hefur fjölgað um 5,5,  á Húsavík um 3 en fækkað um 1 á Þórshöfn. Fjölgun starfa við löggæslu nemur því 7,5 störfum á þeim svæðum sem fylgst er með í Sjálfbærniverkefninu á Norðausturlandi.
Það getur verið áhugavert að skoða fjölda starfa við löggæslu og fjölda íbúa saman en í næsta mánuði eru einmitt væntanlegar nýjar íbúatölur. En ef skoðaðar eru þær tölur sem nú liggja fyrir t.d. vegna áranna 2016 og 2018 þá voru 702 íbúar á hvern lögreglumann árið 2016 en 667 íbúar á hvern lögreglumann árið 2018. Má því segja að íbúaþróun og þróun í fjölda starfa við löggæslu haldist nokkuð vel í hendur.