Römmuð sýn fullgerð og uppsett á Þeistareykjum

05.10.2020

Römmuð sýn fullgerð og uppsett á Þeistareykjum

Við höfum áður sagt frá hugmyndasamkeppni um listaverk í nágrenni við Þeistareykjavirkjun. Römmuð sýn, listaverk Jóns Grétars Ólafssonar arkitekts, er nú fullgert og hefur verið sett upp við Þeistareykjavirkjun. 

Verkið biðlar til fólks að upplifa umhverfið í gegnum og á milli fjögurra stálramma sem vísa í höfuðáttirnar fjórar, norður, austur, suður og vestur. Í miðju verksins er líkan af Íslandi gert úr misháum stuðlum sem taka mið af hæð fjalla og fjallgarða landsins. Þá rísa járnsúlur uppúr landinu líkt og kvika sem finnur sér leið upp á yfirborð jarðar og tákna hvort tveggja í senn jarðhitan sem kraumar undir landinu og dropasetina sem finna má í hellum víðsvegar um landið. Súlurnar eru af tveimur þykktum og eru þær svarari staðsettar við háhitasvæði landsins en grennri súlurnar við lághitasvæði. 

Stefnt er að því að verkið verði vígt við hátíðlega athöfn þegar veður leyfir og takmörkunum vegna sóttvarna hefur verið aflétt. 

Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Landsvirkjunar. Ljósmyndari er Hreinn Hjartarson.