Staða bílaflota á Miðsvæði

03.02.2021

Staða bílaflota á Miðsvæði

Unnið hefur verið að uppfærslu á stöðu bílaflotans á miðsvæði og er henni nú lokið fyrir árið 2021. Helstu niðurstöður sýna að breyting er að verða á orkugjöfum bifreiða, útblástursgildi fara lækkandi sem og eyðslugildi. 

Ef orkugjafar eru skoðaðir er þróunin sú sama á Miðsvæðinu og á landinu öllu. Bifreiðum sem ganga fyrir bensíni fer fækkandi, bifreiðum sem ganga fyrir öðrum aflgjöfum s.s. dísel, rafmagni eða einhvers konar blöndu af afgjöfum t.d. rafmagn/dísel, rafmagn/bensín fer fjölgandi. Hlutfall bensínbifreiða er þó töluvert hærra á landinu öllu en á Miðsvæði og öfugt, hlutfall díselbifreiða er hærra á Miðsvæði en á landinu öllu. Þá er hærra hlutfall bifreiða sem gengur fyrir rafmagnið eða blönduðum orkugjöfum á landinu öllu en á Miðsvæði en þróunin þó í sömu átt að þetta hlutfall fer hækkandi. Árið 2017 var hlutfall díselbifreiða á Miðsvæði 44,2% en árið 2021 er hlutfallið komið í 49,1%, hlutfall bensínbifreiða var 55,1% en er komið í 48,2%. Hlutfall tengiltvinnbifreiðar hefur hækkað úr 0,5% í 2,1% á milli áranna 2017 og 2021 og rafmagnsbifreiða úr 0,2% í 0,6%. 

Eyðslugildi bifreiða m.v. l/100 km í blönduðum akstri var 8,98 l/100 km á Miðsvæði árið 2017 en er komið í 7,72 l/100 km árið 2021. Ýmsar skýringar geta verið á lækkuninni t.d. endurnýjun á bifreiðum á svæðinu sem og að nú eru fleiri bifreiðar í ökutækjaskrá með uppgefið eyðslugildi. Upplýsingarnar að verða því betri eftir því sem tímanum vindur fram.  Eyðslugildi bifreiða á Miðsvæði var hæstur í Skútustaðahreppi árið 2017, 10,13 l/100 km, en í Þingeyjarsveit árið 2021, 7,91 l/100 km. Til samanburðar var eyðslugildi bifreiða á landinu öllu 8,98 l/100 km árið 2017 en er 2021 7,72 l/100 km. Lægsta eyðslugildi inn á Miðsvæði hafa bifreiðar í Norðurþingi. 

Útblástursgildi bifreiða á Miðsvæði var 204,8 g/km af koldíoxíð(CO2) árið 2017 en 192,6 g/km árið 2021. Á sama tíma var útblástursgildi bifreiða á landinu öllu 167,4 g/km af koldíoxíð árið 2017 en 153,7 g/km árið 2021. Útblástursgildi bifreiða á Miðsvæði er hæst í Þingeyjarsveit en lægst í Norðurþingi. 

Auk þess sem framangreint er skoðað og birt er fylgst með meðalaldri bifreiða. Á því tímabili sem gögn ná yfir hefur meðalaldur bifreiða á svæðinu hækkað um 1,75 ár, úr 19 árum í 20,75 ár. Hæstur meðalaldur bifreiða er í Tjörneshreppi, 25 ár árið 2021 en lægstu í Norðurþingi, 17 ár árið 2021. 

Til gamans tókum við svo saman íbúa á bifreið á íbúa á tímabilinu. Þær upplýsingar ná til áranna 2017-2020 þar sem upplýsingarum fjölda íbúa 1. janúar 2021 hafa ekki verið birtar af Hagstofunni. Árið 2017 áttu voru 1,14 íbúar um hverja bifreið á Miðsvæði en 1,11 íbúar á bifreið árið 2020. Íbúar í Tjörneshreppi hafa á tímabilinu verið frá 0,59 (2020) íbúum um bifreið til 0,68 (2017). Íbúar í Norðurþingi eru flestir um hverja bifreið eða frá 1,46 (2020) til 1,66 (2017).