Svæðisbundin staða bílaflota

12.02.2019

Svæðisbundin staða bílaflota

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi fylgist með svæðisbundinni stöðu bílaflotans. Nú hafa tölur verið uppfærðar fyrir vísi 2.7 og má þar skoða útblástursgildi, eyðslugildi í blönduðum akstri og orkugjafa bifreiða á miðsvæði. Bæði þessi gildi gefa vísbendingar um endurnýjun bílaflotans á miðsvæði.

Einn fyrirvari er á upplýsingum um útblástursgildi og eyðslugildi bifreiða. Hann er sá að gildin er ekki uppgefin í ökutækjaskrá fyrir allar bifreiðar. Fyrst og fremst er um eldri bifreiðar að ræða sem ekki hafa skráð útblástursgildi og eyðslugildi. Það er þó ekki algilt og dæmi um bifreiðar sem skráðar eru eftir 2000 hafi ekki skráð úblástursgildi. Hlutfall þeirra bifreiða sem hafa skráð útlbásturs- og eyðslugildi fer þó hækkandi og er núna komið yfir 50% á miðsvæði fyrir útblástursgildi og um 47% fyrir eyðslugildi.
Þrátt fyrir þennan annmarka er engu að síður áhugavert að fylgjast með þróun þessara tveggja mælikvarða. Báðir hafa þeir farið lækkandi frá því vöktun þeirra hófst árið 2017. Sem dæmi má nefna að upplýsingar um útblástursgildi gefa til kynna að gildið hafi lækkað úr 199 g/km í Norðurþingi í 192,6 g/km frá árinu 2017 til ársins 2019. Í hinum sveitarfélögunum er sömu sögu að segja, gildið er á niðurleið. Í samanburði við landið í heild sinni er útblástursgildi þó enn tiltölulega hátt en meðaltal fyrir landið er 161 g/km. 
Hvað varðar eyðslugildið varðar þá er það sömuleiðis á niðurleið. Meðaltal fyrir miðsvæði var 8,92 l/100 km í blönduðum akstri árið 2017 en er 7,89 l/100 km í blönduðum akstri í byrjun árs 2019. 

Þriðja gildið sem fylgst er með er orkugjafi bifreiða á miðsvæði. Flestar bifreiðar ganga fyrir bensíni og dísel en bifreiðum sem flokkast sem tengiltvinnbifreiðar og rafmagnsbifreiðum fer fjölgandi. Þá er áhugaverð þróun að eiga sér stað varðandi dísel- og bensínknúnar bifreiðar þar sem hlutfall bensín bifreiða fer lækkandi og hlutfall díselbifreiða hækkandi.