Nýjir mannfjöldapýramídar

21.05.2018

Nýjir mannfjöldapýramídar

Hagstofan birti í mars síðastliðinum nýjar upplýsingar um fjölda íbúa. Eins og sjá má í vísi 1.1 - Lýðfræði hefur íbúum fjölgað umtalsvert á miðsvæðinu. En þar er einnig að finna samanburð við landið all, austur- og vestursvæði.

Þegar rýnt er betur í fjöldann og kynja- og aldurssamsetning skoðuð sést að það hefur orðið umtalsverð breyting á samsetningu íbúa ef árið 2018 er borið saman við árið 2013. Fyrir fimm árum síðan hafði pýramídinn nokkuð hefðbundið útlit svæðis þar sem fólksfækkun á sér stað. Pýramídinn hafði "mitti" þar sem fólk á barneignaraldri var ívið færra en fólk í aldurshópunum á undna og eftir. Þá var einni áberandi að tveir yngstu aldursflokkarnir 0-4 ára og 5-9 ára voru fámennari en þeir sem komu þar á eftir. En hvort tveggja helst þetta nokkuð í hendur þ.e. fáir í hópi fólks á barneignaaldri og þá eru færri börn. Í byrjun árs 2018 ber pýramídinn sterk einkenni framkvæmdatímans þar sem karlmenn eru fleiri en konur í öllum aldursflokkum frá 25-64 ára aldurs. Ef hægri hlið pýramídans er skoðuð þá lítur hún svipað út og árið 2013 nema að börn eru færri í yngstu árgöngunum og að fjölgun er að eiga sér stað í 25-29 ára aldurshópnum sem er hluti af þeim hópi sem tilheyrir hefðbundnum barneignaraldri.