Útblásturs- og eyðslugildi bifreiða á miðsvæði lækkar

13.01.2020

Útblásturs- og eyðslugildi bifreiða á miðsvæði lækkar

Á vettvangi Gaums er fylgst með útblásturs- og eyðslugildi bifreiða ásamt orkugjafa. 

Þegar byrjað var að vakta framangreinda þætti árið 2017 var hlutfall bifreiða sem nýttu rafmagn sem orkugjafa að hluta til eða öllu leyti ekki nema 0,57% á miðsvæðinu. Það hefur nú hækkað í 2,21%. Samsvarandi gildi fyrir landið allt hefur hækkað úr 3,84% í 5,22%. Lang stærstur hluti bifreiða notar bensín og dísel sem orkugjafa. Hlutfall díselbíla er hærra á miðsvæði en á landsvísu og hlutfall bensínbíla hærra á landsvísu en á miðsvæði. 

Eyðslugildi er mælt í l/100 km í blönduðum akstri (innan- og utanbæjarakstur) og miðast gögin í ökutækjaskrá sem upplýsingarnar við uppgefin gildi framleiðenda bifreiða. Á fyrsta árinu sem vöktunin nær til voru einungis 10% bifreiða á miðsvæði skráðar með eyðslugildi en síðan þá hefur þeim fjölgað og hlutfallið verið að nálgast það að 50% bifreiða væru skráðar með eyðslugildi. Gera má ráð fyrir að skráning í ökutækjaskrá hafi verið bætt og það skýri þessa aukningu bifreiða með skráð eyðslugildi, þó einnig sé líklegt að endurnýjum bifreiða sé að hluta til skýring á fjölgun bifreiða með skráð eyðslugildi. Árið 2017 var eyðlsugildi bifreiða á miðsvæði 8,98 l/100 km í blönduðum akstri en er nú 2020 7,87 l/100 km í blönduðum akstri. Það hefur því lækkað um 1,11 l/100 km í blönduðum akstri. En ef horft er til lækkunar frá árinu 2018 til ársins 2020 þar sem skráning hefur verið með sama hætti nemur hún 0,14 l/100 km í blönduðum akstri.  

Útblátursgildi er mælt í grömmum af koldíoxíð (CO2) á kílómeter (g/km). Árið 2017 var útblástursgildið 204,75 g/km en er nú á árinu 2020 komið niður í 197,6 g/km og hefur því lækkað um 7,15 g/km. Til samanburðar þá var útblásturgildi bifreiða á landinu öllu 167,4 g/km árið 2017 en hefur lækkað í 157 g/km á árinu 2020.  Útblástursgildi var hæst í Þingeyjarsveit við upphaf vöktunar Gaums, 210 g/km. Lægst var það í Norðurþing 199 g/km. Útblásturgildi hefur lækkað mest í Tjörneshreppi á vöktunartímanum eða um 8.1 g/km.  

Til gamans fylgjumst við einnig með meðalaldri bifreiða á svæðinu þó þær upplýsingar séu ekki birtar nema í frumgöngum og úrvinnslu vegna vísisins. Meðaaldur bifreiða í Norðurþingi er 16 ár og hefur verið það allan vöktunartímann. Meðalaldur bifreiða í Þingeyjarsveit er 21 ár að undanskyldu árinu 2019 þegar hann var 22 ár. Í Skútustaðahreppi var meðalaldur bifreiða 17 ár við upphaf vöktunarstímans en hefur hækkað í 18 ár. Í Tjörneshreppi var meðalaldur bifreiða 22 ár við upphaf vöktunartímans en er núna 24 ár.  

Frekari upplýsingar og myndir sem sýna þróunina á þeim tíma sem vöktunin nær til er að finna undir vísi 2.7