Eignir sveitarfélaga á íbúa aukast

27.11.2019

Eignir sveitarfélaga á íbúa aukast

Nýverið kom út Árbók sveitarfélaga en í henni eru birtar upplýsingar um fjárhag og rekstur sveitarfélaga. Þangað sækir Gaumur upplýsingar sínar um eignir, skuldir og skuldahlutfall sveitarfélaganna fjögurra sem eru á vöktunarsvæði Gaums. Við höfum nú lokið uppfærslu á vísi 3.4 þar sem þessar upplýsingar eru birtar. Áður höfðum við uppfært upplýsingar um skuldahlutfall sveitarfélaganna og birt um það frétt þann 16. október síðastliðinn. 

Upplýsingar um eignir sveitarfélaga eru birtar í kr. á íbúa. Eignir á íbúa hafa aukist í öllum sveitarfélögunum á vöktunartíma Gaums. Aukningin er mest í Tjörneshreppi, hvort sem horft er til krónutölu (679.251 kr. á íbúa) eða hlutfallsegrar aukningar (64%). Hlutfallslega er aukningin minnst í Norðurþing (17%) þó í krónutölu sé aukningin næst mest þar (434.993 kr.).
Eignir í Þingeyjarsveit hafa aukist um 197.198 kr. á íbúa á tímabilinu og í Skútustaðahreppi um 382.078 kr. á íbúa.

Skuldir sveitarfélaga eru einnig birtar í kr. á íbúa. Ef skuldir sveitarfélaganna eru skoðaðar kemur í ljós að þær hafa einnig aukist í öllum sveitarfélögunum á vöktunartíma Gaums. Skuldaaukning er hlutfallslega mest í Tjörneshreppi (218%) á vöktunartímanum þó hún sé lægst í krónum talið eða 53.190 kr. Við upphaf vöktunartímans skuldaði Tjörneshreppur sem munaði 24.388 kr. á íbúa en við þessa síðustu uppfærslu á vísi 3.4 voru skuldir á hvern íbúa 77.578 kr.

Í Norðurþingi er skuldaaukningin á hvern íbúa hlutfallslega lægst á vöktunartímanum eða 12% þó hæst sé hún í krónum talið eða 250.488 kr. Skuldir Þingeyjarsveitar hafa aukist um 142.443 kr. á íbúa á meðan skuldir Skútustaðahrepps á hvern íbúa jukust um 54.819 kr. 

Rétt er að geta þess að á vettvangi Gaums hefur ekki verið rýnt í tölurnar með þróun íbúafjölda eða þróun heildarskulda sveitarfélaganna í huga heldur eingöngu birtar upplýsingar eins og þær koma fyrir í Árbók sveitarfélaga.  Aukning skulda á hvern íbúa getur skýrst af annað hvort raunverulegri skuldaaukningu sveitarfélags eða fækkun íbúa. Sem dæmi má nefna að ef sveitarfélag skuldar 100 milljónir og íbúar eru 100 þá eru skuldir á íbúa 1 milljón. Fækki íbúum í 95 á milli ára en heildarskuldir haldast óbreyttar aukast skuldir á hvern íbúa í 1.052.631 kr.